Um helgina fór fram lokamótið í Íslandsmóti 8. fl. karla. Við fórum í Borgarnes og spiluðum þar fjóra leiki, 2 sigrar og 2 töp. Ég er virkilega stolltur af strákunum, þeir voru til fyrirmyndar innan sem utan vallar. Þeir lögðu mikið á sig í öllum leikjunum, börðust eins og ljón og spiluðu á löngum köfum mjög vel. Þrátt fyrir að tapa 2 leikjum, þá vorum við raun ótrúlega nálægt því að komast upp í A-riðil. Sá kjarni sem hefur verið að mæta á nánast hverja einustu æfingu undanfarið spiluðu stóran hluta í öllum leikjunum og sýndu að þeir hafa verið að sinna sínum æfingum vel og það mátti glögglega greina framarir hjá þeim hópi. Nú er bara að fjölga þessum kjarna sem að æfir vel, breikka hópinn og gera enn betur í næstu mótum.
Framundan eru skipulagðar æfingar í rúma 2 mánuði í viðbót, því brýnt að slá ekki slöku við núna, heldur áfram að bæta sig.
Leikir helgarinnar voru eftirfarandi:
Haukar - Stjarnan: Fyrsti leikur mótsins var á móti Stjörnunni. Leikurinn fór rólega af stað og lítið skorað í fyrsta leikhluta, vörnin í góðu lagi. Við leiddum eftir fyrsta leikhluta 6-4. Í öðrum leikhluta mættum við ekki alveg tilbúnir til leiks og það var eins og okkur vantaði trú á að við gætum unni Stjörnuna. Stjarnan gekk á lagið og vann 2. leikhluta 0-11 og leiddi því 6-15 í hálfleik. Í seinni hálfleik byrjuðum við ágætlega og minnkuðum muninn niður í 5 stig, en nær komumst við ekki og leikurinn endaði með öruggum Stjörnunnar 26 - 38. Stigaskor skiptist eftirfarandi: Yngvi 11 (víti 1/4), Hilmar P. 4, Siggi 4 (víti 0/4), Magni 3, Kári 2 og Anton 2, Gulli (víti 0/2). Vítanýtingin var slök eða 1 af 10, 10%.
Haukar - KRb: Strákarnir mættu vel tilbúnir í þennan leik og komust í 11-2 og enduðu 1. leikhluta 13-6. Leikurinn jafnaðist aðeins í öðrum leikhluta, en áfram héldum við nokkuð þægilegu forskoti og var staðan í hálfleik 23-15. KR-ingar söxuðu á forskotið í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 2 stig, 30-28. En þá sögðu okkar strákar hingað og ekki lengra og spýttu í lófana svo um munaði, skoruðu næstu 7 stigin og leiddu 37-30 fyrir loka leikhlutann. Í fjórða leiklutanum gekk svo allt upp, við skoruðum 23 stig og fengum einungis á okkur 6 stig. Leikurinn vannst því örugglega 60-36, frábær leikur. Baráttan, hvernig við leystum pressuna, hraðaupphlaupin sem skiluðu mörgum einföldum körfum og hvernig við hlupum til baka og gáfum engar auðveldar körfur var allt til fyrirmyndar í þesum leik, allir skiluðu frábæru hlutverki í þessum leik. Stigaskorið var eftirfarandi: Anton 28 (víti 6/6), Siggi 13(víti 1/2), Kári 6 (víti 0/1), Daði 5 (víti 0/2), Yngvi 4, Eiður 2 og Magni 2. Vítanýtingin var líka mjög flott í þessum leik eða 7 af 11eða 64%.
Haukar - Reykdælir: Fyrsti leikhluti var mjög jafn, við skorum að vísu fyrstu 4 stig leiksins, en Reykdælir svar með því að skora næstu 5 stig og breyta stöðunni í 4-5, leikhlutinn endar síðan í 9-8 okkur í vil. Í öðrum leikhluta mættum við virkilega ákveðnir til leiks, spiluðum frábæra vörn sem skilaði sér í auðveldum körfum í kjölfarið. Leikhlutinn vannst 12-2 og við leiddum því í hálfleik 21-10. Seinni hálfleikurinn var með sama sniði, vörnin var mjög sterk allan leikinn og dugnaðurinn skilaði því mörgum hraðaupphlaupum og auðveldum körfum, þriðji leikhluti endaði 34-16 og svo öruggur sigur 44-23. Þessi leikur ásamt sigrinum á móti KR eiga það sammerkt að vörnin var frábær og því gáfust margir möguleikar á auðveldum körfum úr hraðaupphlaupum í kjölfarið. Frábær leikur. Stigaskorið var eftirfarandi: Anton 16 (víti 1/3), Yngvi 8, Siggi 8 (víti 2/5), Daði 6 og Kári 6 (víti 0/1). Vítanýtingin var þó slök í þessum leik eða 3 af 9 eða 33%.
Haukar - Fjölnir: Þegar hér var komið við sögu var ljóst að þessi leikur yrði úrslitaleikur mótsins um hvort liðið kæmist upp í A-riðil. Leikurinn fór vel af stað fyrir okkur, en við skoruðum fyrstu 4 stig leiksins. En þá fór þeirra besti maður í gang og áttum við í erfiðleikum með að stoppa hann, fyrsti leikhluti endaði 8-12. Vörnin var okkar aðalsmerki í öðrum leikhluta og jöfnuðum við leikinn í 12-12. Í sóknini gekk okkur hins vegar ekki sem skyldi og hálfleikstölurnar voru 12-15, allt opið. Í þriðja leikhluta voru við þó ekki tilbúnir þegar hann fór af stað. Fjölnir gekk á lagið og skoruðu 13 stig á móti 2 fyrstu mínúturnar og breyttu stöðunni í 14-28, 14 stiga munur og útlitið ekki bjart. Við gerðum þó vel og minnkuðum muninn niður í 5 stig áður en þriðja leikhluta lauk og staðan fyrir loka leikhlutann var 29-34. Í fjórða leikhluta juku Fjölnismenn muninn aftur og komust mest 10 stigum yfir. Við sýnum þó mikinn karakter og minnkuðum muninn niður í 3 stig þegar innan við 1 mínúta var eftir af leiknum. Leiknum lauk þó með flatuþrist frá Fjölni og 6 stiga sigri 39-45. Þrátt fyrir tap geta okkar drengir verið stolltir af sínu framlagi í þessum leik, sem og helginni allri. Stigaskorið var eftirfarandi: Yngvi 20 (víti 0/2), Daði 7, Anton 6, Siggi 4 (víti 2/6) og Kári 2 (víti 0/4). Vítin rötuðu ekki rétta leið í þessum leik og var það okkur dýrkeypt þegar uppi var staðið, vítanýtingin var 2 af 12 eða 17%
Á heildina litið getum við verið ánægð með afrakstur helgarinnar. Strákarnir lögðu sig alla fram og hlífðu sér hvergi. Unnu 2 flotta stóra sigra og með smá heppni í lokaleiknum hefð hlutskipti okkar verið að vinna riðilinn. Við þurfum því að halda áfram á sömu braut, mæta vel á æfingar og leggja okkur fram þar, því það skilar síðar árangri í komandi keppnum.