Sunday, February 13, 2011

Íslandsmótið í Grindavík

Strákarnir stóðu sig vel seinni daginn og unnu 2 góða og örugga sigra, heildarniðurstaðan var því 2 töp og 2 sigrar. Hér að neðan verður gerð stutt grein fyrir leikjunum fjórum.

Fyrsti leikur laugardagsins var á móti KR. Leikurinn fór mjög vel af stað og leiddum við 10-3 eftir fyrsta leikhluta og 16-9 í hálfleik. Í seinni hálfleik töpuðust nokkrir boltar á upphafsmínútum og við fórum á taugum. KR-ingarnir breyttu stöðunni úr 16-9 í 22-30 í þriðja leikhluta, eða unnu leikhlutann 21-6. Þeir héldu síðan uppteknum hætti og unnu síðasta leikhlutann 25-6 og stórsigur 55-28 og niðurstaðan því 27 stiga tap, þrátt fyrir að hafa leitt með 7 stigum í hálfleik. Ljósi punkturinn í þessum leik er að Gunnar var að skora sitt fyrsta stig á Íslandsmóti, en hann hann kom inná í lok leiksins og setti niður 1 víti. Til hamingju Gunnar. Stigaskor leikmanna var eftirfarandi: Siggi 9, Yngvi 8, Daði 5, Magni 4 og Logi 2

Annar leikur laugardagsins var á móti Grindavík. Við lentum undir eftir fyrsta leikhluta, en þá leiddu Grindvíkingar 10-6. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik 17-12 Grindavík í vil. Okkur gekk erfiðlega að saxa á forskot Grindvíkinga og vorum 10 stigum undir þegar að þriðja leikhluta lauk, 28-18. Grindvíkingar kláruðu síðan leikinn 46-30. Stigaskor leikmanna var eftirfarandi: Siggi 12, Yngvi 5, Eiður 4, Bjarki 4, Gulli 2 og Logi 2.

Þess er vert að geta að Anton gat ekki spilað með okkur leikina á laugardeginum og var hans sárt saknað, hann kom þó aftur inn í hópinn á sunnudeginum og spilaði báða leikina.

Þriðji leikur helgarinnar var á móti Reykdælum og áttum við harma að hefna frá mótinu í Borgarnesi þegar að við töpuðum fyrir þeim þar. Leikurinn fór rólega af stað og leiddum við leikinn eftir fyrsta leikhluta 6-4. Strákarnir tóku góðan sprett í öðrum leikhluta og leiddu í hálfleik 16-8. Reykdælir tókst aldrei að ógna okkar forskoti eftir það og jukum við muninn upp í 13 stig fyrir loka leikhlutann eða 28-15. Leiknum lauk síðan með öruggum sigri okkar eða 38-21. Varnarleikur, fráköst og barátta drengjanna til mikilla fyrirmyndar, sem skóp þennan sigur. Stigaskor leikmanna var eftirfarandi: Siggi 16, Yngvi 8, Anton 6, Magni 4, Daði 3 og Eiður 1.

Lokaleikurinn var á móti FSU, en eins og á móti Reykdælum þá töpuðum við fyrir þeim í Borgarnesi. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum var 9-9. Mikill kraftur kom með drengjunum sem spiluðu annan leikhluta og náðu þeir forskoti áður en flautað var til hálfleiks, 19-13. Munurinn eftir það jókst síðan jafnt og þétt, 29-19 eftir þriðja leikhluta og endaði 42-25. Stigaskor leikmanna var eftirfarandi: Daði 10, Siggi 8, Magni 6, Anton 5, Logi 4, Jökull 4, Yngvi 3 og Eiður 2.

Alls tóku 15 strákar þátt í mótinu með okkur um helgina, Yngvi Freyr Óðinsson og Kári Ketilsson voru að spila sitt fyrsta mót og óskum við þeim til hamingju með það. Það fengu allir 15 strákarnir að spreyta sig, en eins og alltaf þá fá menn að spila mis mikið. Það eru þó allir hluti af liðinu og taka þátt í hvetja liðið sitt áfram og fagna þeim sem vel gengur.

Strákarnir eiga mikið hrós fyrir hvernig þeir mættu til leiks á sunnudeginum eftir 2 slæm töp daginn áður. Þeir rifu sig upp, sýndu mikla baráttu og sigurvilja og voru vel að þessum sigrum komnir. Varnarleikurinn, baráttan, fráköstin og frammistaðan í heild sinni til mikillar fyrirmyndar.

Vítanýting okkar var sérstaklega slæm og hefur ekki verið verri í vetur. En við hittum einungis úr 11 af 47 vítum eða 23%. Eitthvað sem við þurfum að taka á, á næstu æfingum.

Heildarstigaskor helgarinnar var eftirfarandi: Siggi 45, Yngvi 24, Daði 18, Magni 14, Anton 11, Logi 8, Eiður 7, Bjarki 4, Jökull 4, Gulli 2 og Gunnar 1

No comments:

Post a Comment