Wednesday, May 11, 2011

Sumaræfingar

Æfingabúðir kkd. Hauka sumarið 2011

Árgangar 1998, 1997 og 1996 – Drengir og stúlkur.

10 vikna körfuboltabúðir á vegum kkd. Hauka verða sumarið 2011. Tvær inniæfingar verða í hverri viku, á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 16.00 – 17.30, og tvær styrktaræfingar í viku á mánudögum og fimmtudögum.

Æfingar byrja strax er skóla lýkur, mánudaginn 6 júní og standa til föstudagsins 19 ágúst. Frí verður í kringum verslunarmannahelgina, frá fimmtudeginum 28 júlí til mánudagsins 8 ágúst.

Áhersla verður á einstaklingsæfingar og einblýnt á grunnhreyfingar, svo sem fótahreyfingar, sóknarstöðu, drippl, skot og margt fleira. Iðkendum verður líka kennt betra hugarfar á æfingum og keppni og hvernig á að undirbúa sig undir æfingar og leiki og farið í næringarfræðslu.

Yfirþjálfarar verða Ívar Ásgrímsson, yfirþjálfari kkd. Hauka og Helena Sverrisdóttir atvinnumaður í körfubolta. Ívar hefur mikla reynslu sem þjálfari, hefur þjálfað bæði kvenna- og karlalið í efstu deild, A landslið kvenna og yngri landslið Íslands. Helena er ein besta körfuknattleikskona Íslands frá upphafi og hefur verið að spila með frábærum árangri með háskólaliðinu TCU í Bandaríkjunum, var í nýliðavali WNBA og er nýbúinn að skrifa undir samning við eitt besta lið Evrópu í kvennaboltanum og er það mikill fengur að fá hana til þess að kenna á þessu námskeiði. Styrktaræfingarnar mun Kristján Ómar Björnsson sjá um en hann hefur mikla reynslu og góða menntun á þessu sviði. Kristján Ómar hefur séð um styrkaræfingar hjá yngri flokkum Hauka síðasta vetur og er einnig kennari á Keili. Það er mjög mikilvægt að vinna í að auka styrk og liðleika krakka á þessum aldri og hefur Kristján Ómar gert einstaklega góða hluti með yngri flokkana og því er það mikill akkur að hafa hann á þessu námskeiði. Auk þessa verða aðrir þjálfarar úr þjálfarateymi Hauka á námskeiðinu.

Kostnaður vegna þessa námskeiðs er 15.000 kr. fyrir allar 10 vikurnar eða einungis 1.500 kr. vikuna. Auk þess þarf að skrá iðkendur á íbúagáttina fyrir 3ja tímabil ársins sem verður í byrjun júní.

Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni hjá kkd. Hauka og ætti að gera okkar flokka enn betri í að ná þeim markmiðum sem deildin stefnir að með sína iðkendur.

No comments:

Post a Comment