Sunday, March 31, 2013

Dagur 4 tekinn snemma

Það voru nokkuð þreyttir strákar sem voru vaktir kl. 6:20 í morgun, eftir frekan stuttan svefn þar tíminn hér í Svíþjóð datt í sumartíma í nótt.  Strákarnir voru þó röskir að koma sér á fætur og drífa sig beint í morgunmat, en hann opnar hér 6:30.  Þar var tekið vel til matar síns að venju og svo haldið af stað til Wasa, 10 mínútna akstur.

Við vorum mættir tímalega fyrir leikinn eða 50 mínútum áður en hann átti að byrja.  Því nægur tími til að hita vel upp, teygja á og gera sig klára fyrir leikinn.  Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun og við þó ávallt skrefi á undan og leiddum með 2ja stiga mun eftir fyrsta leikhluta.  Annar leikhluti gekk þó ekki eins vel og lentum við í nokkrum vandræðum með norska liðið (Sandvika).  Við misstum þá aðeins fram úr okkur og Sandvika leiddi með 8 stigum í hálfleik.  Áfram héldu Sandvika að auka forskotið og fór það mest í 13 stig, en í lok 3ja leikhluta náðum við að minnka það niður í 5 stig.  Sá munur hélst nokkuð fyrri hluta síðasta leikhluta, en þegar að um 2 mínútur voru eftir náðum við að jafna í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta.  Síðustu 2 mínúturnar voru svo okkar og náðum við að klára leikinn með sætum 4 stiga sigri.

Núna á eftir förum við í hádegismat og svo fá strákarnir frjálsan tíma til að kíkja í bæinn til kl. 15:30.  Eftir það munum við svo taka því rólega hér á svæðinu, kannski kíkja á einhverja leiki.  Tökum snemmbúinn kvöldmat um kl. 18:00 og svo er leikurinn um 9-10 sætið kl. 20:20 í kvöld.  Það yrði frábær síðasti leikur að ná sigri þar og þar með 3ja sigrinum í röð og 50% vinningshlutfalli í þessu sterka móti.  En sá leikur er eftir og strákarnir þurfa að mæta vel stemmdir í hann.

No comments:

Post a Comment