Sunday, January 29, 2012

Íslandsmótið 28. janúar

Árangur gærdagsins var frábær 3 sigrar í 3 leikjum.  Það var ánægjulegt að sjá hvað drengirnir voru tilbúnir að leggja sig fram og baráttan var til fyrirmyndar.  Hér að neðan greini ég frá stigaskori í hverjum leik og á heildina litið.  Ég vil þó sérstaklega taka fram að stigaskorið er ekki eini mælikvarðinn á hversu vel drengirnir stóðu sig.  Það voru margir drengir sem sýnda frábæra baráttu, frábæran varnarleik og skutluðu sér á alla lausa bolta.  Slíka frammistöðu er ekki hægt að geta í tölum hér að neðan, en er okkur ómetanleg og skilaði okkur þessum árangri í gær.

Haukar - Fjölnir b:  Leikurinn fór hægt að stað hjá okkar drengjum og ekki laust við að vottaði fyrir vanmati á að mæta b-liði.  Fjölnir b spilaði vel, börðust vel og gerðu okkur erfitt fyrir, og leiddu eftir fyrsta leikhluta 9-12.  Í öðrum leikhluta náðum við að herða á vörninni og fengum fleiri auðveldar körfur í kjölfarið.  Í hálfleik vorum við komnir með 3ja stiga forskot eða 17-14.  Í seinni hálfleik sýndum við okkar rétta andlit og Fjölnir b smám samam gáfust upp.  Staðan eftir 3ja leikhluta var 29-19.  Áfram héldum við að bæta í og leikurinn endaði 43-24 eða 19 stiga sigur.  Stigaskorið var eftirfarandi:  Anton 13, Kári 12, Yngvi 8, Siggi 4, Logi 2, Daði 2 og Bjarki 2.  Við fengum engin vítaskot í þessum leik.

Haukar - Valur:  Varnarleikurinn var áfram sterkur hjá okkur og Valur komst lítt áleiðis að körfunni okkar.  Staðan eftir fyrsta leikhluta var 8-0.  Annar leikhluti var á svipuðum nótum, við bættum þó í sóknarleikinn og náðum að hlaupa á þá og fá auðveldar körfur.  Staðan eftir annan leikhluta var 27-4.  Í þriðja leikhluta má segja að leikurinn hafi endanlega klárast og við leiddum 41-6.  Í fjórða leikhluta voru lykilleikmenn hvíldir meira og minna allan leikhlutann.  Þeir sem að komu inná nýttu tækifærið sitt vel og kláruðu leikinn með sóma, sem endaði 57-15.  Stigaskorið dreifðist vel:  Yngvi 11, Daði 8, Kári 8, Anton 8, Logi 8, Jökull 4, Aron Ás 4, Siggi 4 og Bjarki 2.  Vítanýtingin okkar var hins vegar slök, en kom ekki að sök við hittum úr 1 af 6 eða 17%.

Haukar - Snæfell:  Snæfellsliðið hefur á að skipa hæfileikaríkum kröfuboltastrákum, því mátti fyrirfram búast við hörkuleik sem varð raunin.  Í fyrsta leikhluta vorum að sýna frábæran varnarleik og náðum að halda Snæfellingum í 2 stigum.  Sóknarleikurinn var hins vegar ekki upp á það besta.  Leikhlutinn endaði 6-2 okkur í vil.  Í öðrum leikhluta slaknaði á vörninni og Snæfellingar gengu á lagið, skoruðu á okkur 10 stig í röð og breyttu stöðunni í 6-12.  Strákarnir sýndu á þá mikla baráttu og náðu að loka á þá í vörninni og skora 7 síðustu stig leikhlutans.  Í hálfleik var því staðan 13-12.  Í þriðja leikhluta voru Snæfellingar ávallt skrefi á undan okkar drengjum, en við þó alltaf skammt undan.  Staðan eftir 3ja leikhluta var 27-29.  Í 4ja leikhluta þegar að staðan var 34-34, tókum við leikhlé og settum inn pressuvörn sem við höfum æft undanfarið.  Snæfellingarnir voru farnir að þreytast, enda spila á færri mönnum en við.  Pressuvörnin tókst framar vonum og við skoruðum 11 stig í röð og breyttum stöðunni í 45-34.  Snæfellingarnir gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í 3 stig þegar um mínúta var eftir af leiknum.  Þeir þurftu þó að brjóta á okkur og var það hlutverk Daða að fara á vítalínuna í restina og sýndi hann stál taugar með því að setja öll 4 vítaskotin sín niður og klára leikinn 51-44.  Stigaskorið var eftirfarandi:  Anton 21, Yngvi 8, Siggi 7, Daði 6, Kári 4, Eiður 2, Logi 2 og Magni 1.  Vítanýtingin var þokkaleg en mætti vera betri, en við hittum úr 8 af 18 skotum eða 44%.

Samantekt:
Leikkerfið var vel spilað og skilaði stóru mönnunum okkar mörgum stigum
Náðum mörgum sóknarfráköstum sem skiluðu fleiri skottilraunum og stigum
Góður varnarleikur, sem gaf mörg tækifæri á hröðum sóknum.
Mörg hraðaupphlaup, m.a. út af góðum varnarleik
Fyrirmyndar barátta og vinnusemi
Pressuvörnin tókst vel, fyrsta skipti sem henni er beitt
Vítanýtingin hefði þó mátt vera betri, en hún var 38%

Framundan eru áframhaldandi æfingar og við ætlum ekki að staldra of lengi við þessa helgi og fagna.  Heldur þurfum við áfram að æfa vel og stefna en hærra í næstu keppni.  Ég geri ráð fyrir að Sindri komi í heimsókn um næstu helgi og spili sína leiki.  Ef við náum sigri þar, þá spilum við í B-riðli í mótinu í mars.  Takmarkið er að gera enn betri hluti þar, en til þess þarf fyrst að klára leikinn um næstu helgi.  Ég vil því hvetja alla drengina að vera duglegir að mæta á næstu æfingar.

No comments:

Post a Comment