Wednesday, November 16, 2011

Íslandsmótið á Akureyri 12.-13. nóvember

Það voru galvaskir drengir mættir 7:15 á laugardagsmorgni á Ásvelli til að fara að keppa á Akureyri.  Ferðin norður gekk vel og vorum við mættir rúmum klukkutíma fyrir fyrsta leik.

Fyrsti leikurinn var á móti heimamönnum frá Akureyri.  Drengirnir okkar byrjuðu leikinn vel og leiddu eftir fyrsta fjórðung 12-6, áfram jókst munurinn og í hálfleik var staðan 20-11.  Strákarnir voru að spila vel, bæði í vörn og sókn.  Áfram héldum við góðum leik og má segja að úrslitin hafi verið ráðin eftir þrjá leikhluta, en þá var munurinn kominn upp í 19 stig eða 36-17.  Við slökuðum helst til mikið á í fjórða leikhluta, en engu að síður öruggur 16 stiga sigur eða 41-25.  Stigaskorið var eftirfarandi: Anton 17 (1/1 í vítum), Kári 7 (1/2 í vítum), Logi 6, Daði 5, Magni, 2, Gulli 2 og Eiður 2.  Það fengu allir 13 strákarnir að spila í þessum leik.  Vítin voru ekki mörg í þessum leik, en vel nýtt 2 af 3 ofan í eða 67%.

Næsti leikur var á móti Sindra sem mættu grimmir til leiks og gerðu okkur erfitt fyrir.  Sindramenn leiddu eftir fyrsta fjórðung 7-11 og juku muninn í þeim næsta og hálfleikstölurnar voru 11-19, lítð að ganga upp í okkar sóknarleik.  Áfram var sóknarleikurinn stirður og okkur gekk illa að vinna upp forskot þeirra, en staðan að þriðja leikhluta loknum var 21-28.  Í fjórða leikhluta náðum við hins vegar að sýna betri leik og skoruðum fyrstu 7 stig leikhlutans og jöfnuðum leikinn 28-28 og aftur var jafnt 34-34.  En lengra komumst við ekki Sindramenn áttu síðustu körfuna og unnu leikinn 34-36.  Stigaskorið var eftirfarandi:  Yngvi Óskars 7 (1/2 í vítum), Logi 7 (3/4 í vítum), Daði 5, Magni 4, Kári 4 (1/4 í vítum), Bjarki 2, Eiður 2, Jökull 2 og Anton 2 (0/4 í vítum).  Vítanýtingin var okkur dýrkeypt í þessum leik, en það fóru eingöngu 5 af 14 ofan í eða 36%.

Fyrri leikur sunnudagsins var á móti Val.  Sóknaleikurinn var stirður í fyrsta leikhluta og okkur gekk illa að koma boltanum ofan í körfuna.  Valur leiddi með 6 stiga mun eða 4-10.  Allt annað var að sjá leik okkar í öðrum leikhluta og við náðum að komast yfir og leiða með 1 stigi í hálfleik eða 14-13.  Seinni hálfleikur var mun betri í þriðja leikhluta náðum við að auka muninn í 5 stig eða 22-17.  Sigurinn var síðan aldrei í hættu í fjórða leikhluta og endaði leikurinn 35-25.  Stigaskorið var eftirfarandi:  Kári 13 (1/4 í vítum), Daði 4 (1/2 í vítum), Anton 4 (0/2 í vítum), Eiður 2, Jökull 2, Gulli 2, Logi 2 og Magni 2.  Vítanýtingin var 2 af 8 eða 25%.

Þegar hér var komið við sögu var ljóst að sigurvegarinn úr síðasta leiknum myndi vinna riðilinn og koma sér upp um riðil.  Nú var komið að því að mæta sameiginlegu liði Skallagríms og Reykdæla, sem spila undir merkjum þess síðar nefnda.  Leikurinn var jafn í fyrsta leikhluta, og nánast jafnt á öllum tölum, leikhlutinn endaði 9-10 andstæðingunum í vil.  Í öðrum leikhluta komust við yfir 11-10, en eftir það hrökk allt í baklás. Reykdælir gengu á lagið og skoruðu næstu 10 stigin og leiddu því í hálfleik  11-20.  Áfram héldu Reykdælir að bæta við forskotið í upphafi þriðja leikhluta og komust í 12-24.  Þá kom ágætur kafli hjá okkur, þar sem við skoruðum 7 stig á móti 2 og leikhlutinn endaði 19-26, 7 stiga munur.  Í fjórða leikhluta náðum við að minnka muninn í 6 stig en nær komust við ekki.  Reykdælir skoruðu síðustu 6 stig leiksins og unnu leikinn 22-34.  Stigaskorið var eftirfarandi: Yngvi Óskars 8, Daði 5 (0/4 í vítum), Logi 3 (1/4 í vítum), Anton 2 (2/4 í vítum), Kári 2 og Bjarki 2.  Vítanýtingin var ekki góð eða 3 ofaní af 12 eða 25%.

Heildarstigaskorið er því eftirfarandi:
Anton 25 (3/11 í vítum, 27%)
Kári 25 (3/10 í vítum 30%)
Daði 19 (1/6 í vítum 17%)
Yngvi Óskars (1/2 í vítum 50%)
Logi 18 (4/8 í vítum 50%)
Magni 8
Eiður 6
Bjarki 4
Jökull 4
Guðlaugur 4

Á heildina litið voru strákarnir að standa sig vel varnarlega, enda erum við ekki að fá okkur nema mest 36 stig í leik.  Sóknarleikurinn hefur hins vegar oft verið betri og færin sem við fengum vorum við ekki að nýta vel.  Heildarvítanýtingin var einnig slök eða 12 ofan í af 37 eða 32%.  Áherslur næstu vikurnar eru því augljósar, sóknarleikur, víti og skot eru hlutir sem við þurfum að leggja rækt við.

No comments:

Post a Comment