Sunday, October 16, 2011

Uppgjör helgarinnar

Fyrsta fjölliðamót vetrarins fór fram í Stykkishólmi um helgina. Hópurinn mætti kl. 9 á laugardagsmorgni til að keyra í Hólminn.

Fyrsti leikurinn var síðan gegn grönnum okkar úr Garðabæ. Leikurinn fór vel af stað og skoruðum við fyrstu 6 stig leiksins og leiddum 6-3 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta var vörnin áfram góð, en við misstækir í sókninni og Stjarnan leiddi 6-10 í hálfleik. Stjörnunni óx ásmegin þegar leið á leikinn og okkar menn ekki að finna sig, en staðan eftir þriðja leikhluta var 12-24. Stjarnan hélt svo þessum mun allt til leiksloka, en lokatölur urðu 26-39 Það var þó jákvætt í þessum leik að við vorum duglegir að sækja á körfuna og komumst mikið á vítalínuna. Nýtingin þar hefði þótt vera betri, en alls misfórust 17 vítaskot, en einungis 6 af 23 rötuðu rétta leið eða 26%. Stigaskorið var eftirfarandi: Hilmar 9, Gulli, 5, Magni, 5, Logi 3, Siggi, 2 og Anton 2.

Seinni leikur laugardagsins var á móti KRb. Okkur gekk nokkuð erfiðlega að koma boltanum í körfuna, þrátt fyrir góð færi nálægt körfunni. KRb náði að ganga aðeins á lagið og leiddi eftir fyrsta leikhluta 4-10. Annar leikhluti var mun betri, vörnin small saman og okkur fór að ganga betur í sókninni og komumst yfir 14-13. Seinn hálfleikur var hnífjafn á nánast öllum tölum, KRb leiddi með einu stigi fyrir lokaleikhlutann og það venjulegum leiktíma lauk var stðan 30-30 og framlengingu þurfti til. Hún var eins og leikurinn sjálfur, jafnt á öllum tölum, sem endaði síðan með flautukörfu þeirra KRinga og lokatölur leiksins því 36-38. Strákarnir eiga þó hrós skilið fyrir baráttuna og allir lögðu sig fram. En við vorum óheppnir undir körfu andstæðingana og mörg auðveld skot fóru forgörðum. Einnig töpuðust mörg auðveld stig á vítalínunni, en nýtingin þar var 2 ofaní af 13 eða 15%. Stigaskor liðsins var eftirfarandi: Siggi 17, Anton 8, Logi 4, Magni 3, Yngvi 2 og Kári 2.

Fyrsti leikur sunnudagsins var á móti heimamönnum. Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og vörn beggja liða í fyrirrúmi, lokatölur leikhlutans voru 4-4. Við fórum mjög vel af stað í öðrum leikhluta og breyttum stöðunni í 12-4, en Snæfell átti síðustu 5 stig leikhlutans og hálfleikstölur því 12-9. Áfram var vörnin sterk í þriðja leikhluta og sóknin frekar stirð og þegar að þriðja leikhluta lauk var staðan 14-15. Í fjórða leikhluta skorum við fyrstu körfuna og komumst yfir, en síðan komu 6 stig í röð frá Snæfelli. Þann mun náðum við ekki að brúa og lauk leiknum því 22-26. Vert er að hrósa strákunum fyrir frábæran varnarleik og baráttu, en ekkert lið náði að halda Snæfellingum í 26 stigum, en lið þeirra er vel frambærilegt. Sóknin var hins vegar ekki upp á það besta hjá okkur, sem varð okkur að falli í þessum leik. Í þessum leik komumst við minna á vítalínuna, en nýttum 2 af 8 skotum, eða 25%. Stigaskorið var eftirfarandi: Anton 12, Siggi 4, Gulli 2, Bjarki 2, Kári 1 og Magni 1.

Lokaleikur mótsins var á móti Fjölni og þar sýndu strákarnir okkar sínar bestu hliðar og sýndu vel hversu megnugir þeir geta verið. Áfram var vörnin góð, eins og í öðrum leikjum mótsins, en núna datt sóknin í gang líka. Leikurinn var jafn í fyrsta leikhluta sem endaði 14-13. Minna var skorað í öðrum leikhluta og hálfleikstölurnar voru 17-18 Fjölni í vil. Í þriðja leikhluta sýndum við einfaldlega meiri vilja til að vinna leikinn og menn lögðu sig virkilega fram og spiluðu að skynsemi. Lokatölur þriðja leikhluta voru 34-26. Áfram héldu okkar strákar að bæta í allt til leiksloka og unnu að lokum sanngjarnan sigur 50-37. Þrátt fyrir skynsaman sóknarleik og mikið af skotum af stuttu færi, þá fengum við bara 2 vítaskot sem bæði skiluðu sér ofaní, eða 100% nýting. Stigaskorið var eftirfarandi Siggi 22, Anton 10, Logi 10, Bjarki 2, Yngvi 2 og Jökull 2.

Helgin tókst í alla staði vel, þó svo að við hefðum vonast eftir betri úrslitum. Drengirnir voru sér til sóma innan sem utan vallar og komu fram sem flottur hópur.

Okkar hlutskipti verður líklega að spila í C-riðli í næsta fjölliðamóti, þar sem sigurinn á móti Fjölni dugði ekki til að bjarga sæti okkar í B-riðlinum. Öll liðin voru mjög jöfn að getu og með einum sigri í viðbót hefði hlutskipti okkar verið að spila í A-riðli í næsta móti. En það fellur í hlut Stjörnurnar.

Okkar verkefni næstu vikurnar er að koma betra skipulagi á sóknarleikinn og fara almennt yfir leikskilning, þ.e. staðsetningar og ákvarðanir leikmanna í sókninni. Að sjálfsögðu er stefnan sett á að koma okkur aftur upp í B-riðil eftir næsta mót.

1 comment:

  1. Mig langar einnig að taka undir orð Marels og hrósa strákunum, þeir voru til fyrirmyndar og megum við vera stolt af þeim! Horfði ég á alla leikina og fannst mér þeir náttúrulega flottastir og sést það langar leiðir að þeir eiga fullt inni eins og þeir sýndu í síðasta leiknum sínum.

    ReplyDelete